Bátasmíði.is

18.11.2011 14:10

Skinnklæðin vekja athygli.

4. September, 2009

Áhugamannahópur sem stendur að stofnun bátasafns Breiðarfjarðar hefur ekki eingöngu með handverk bátasmíða fyrri tíma að gera heldur lagt sig við að læra seglagerð, eldsmíði og sjóklæðagerð.  Mikil vinna hefur verið lögð í að afla heimilda um það handbragð sem tilheyrði gerð þessarra hluta.



  Þau hafa vakið mikla athygli skinnklæðin góðu sem Eggert Björnsson
 félagi okkar frá Patreksfirði saumaði.  Um er að ræða eftirlíkingu af  
 fyrstu gerð skinnklæða sem notuð voru sem sjófatnaður.  Skinnklæðin
 hafa alltaf átt hug Eggerts frá því að hann var ungur og teiknaði hann
 þau gjarnan.  Það tók hann um 3 ár af heimildavinnu áður en
 saumaskapurinn gat hafist og fóru 12 lambsskinn í klæðin.

Skinnklæðin hafa verið fengin að láni á nokkrar sýningar í sumar þ.m.t. á sýningu hjá Alliance Française í Reykjavík um síðustu mánaðarmót.  Hún er um veru franskra sjómanna við Íslandsstrendur á skútuöldinni og sýn Íslendinga á þessum framandi mönnum.  Myndirnar með fréttinni eru teknar þaðan.  Um 70 gestir mættu á opnun sýningunar þar á meðal Vigdís Finnbogadóttir og þóttu skinnklæðin afar áhugaverð.  Það var María Óskarsdóttir Patreksfirði sem fékk klæðin lánuð á sýninguna og að hennar sögn sló þögn á hópinn þegar Páll Óskarsson gekk inn í salinn í klæðunum,  fólkið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, svo mikil var undrun þess. Það vissi ekki hvernig það átti að bregðast við. Allt í einu var kominn þarna sjómaður frá liðinni öld, á meðal þeirra; í sjóskóm og með tvíþumla ullarvettlinga á höndunum. Sjóhatturinn á sínum stað
 


og í hendinni bar hann gamlan fiskigogg. Þegar hópurinn fór aðeins að jafna sig vildu margir, sérstaklega þó konurnar, fá að koma við búninginn. Voru þau skoðuð í bak og fyrir af virtum gestum sem höfðu sumir talsvert vit á saumaskap.  Þar á meðal var Adda Geirsdóttir fyrrverandi skólastjórafrú Héraðsskólans á Laugarvatni. Hún er lærð húsmæðra- og handavinnukennari og hefur þaulæft auga fyrir vönduðu handbragði. Hún fékk að skoða búninginn nákvæmlega, ekki aðeins á réttunni, heldur rönguna líka. Því eins og þeir vita sem vandvirkir eru og kunnugir saumaskap, þá er ekki nóg að allt sýnist slétt og fellt að utan. Bakhliðin eða rangan þarf að standast prófið líka!  Hún dáðist mjög af handverkinu og því hversu vel búningurinn var unninn.

Fleiri aðilar hafa sýnt klæðunum áhuga og má nefna Ósvör sjóminjasafnið í Bolungarvík, líklega með það í huga að sauma einn slíkann.  Þeir höfðu samband við Eggert á dögunum og fengu helstu upplýsingar um sjóklæðagerðina.  Við óskum þeim góðs gengis með saumaskapinn.



Hjalti

Bátasafn Breiðafjarðar

Nafn:

Bátasafn Breiðafjarðar

Staðsetning:

Reykhólar

Tenglar

Flettingar í dag: 577
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 440
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 301213
Samtals gestir: 25493
Tölur uppfærðar: 3.6.2023 15:35:15

Gestir

free counters