18.11.2011 14:08
Heimsókn til Siglufjarðar.
4. August, 2009
Á dögunum heimsóttum við félagarnir Hafliði, Eggert og Hjalti Síldarminjasafnið á Siglufirði þar sem síðari hluti samstarfsverkefnis Síldaminjasafnsins og Bátaverndarmiðstöðvar norður Noregs í Gradanger fer fram. Verkefnið byrjaði þann 6. júlí s.l. þegar Björn Lillevoll og Skúli Thoroddsen hófu smíði á bát með eyfirsku bátalagi og fer smíðin fram í gamla slippnum á Siglufirði. Það er ekki á hverjum degi sem það gefst tækifæri á því að vera viðstaddur smíðar af þessu tagi og því gerðum við okkur ferð norður og fengum að höggva niður í nokkur bönd í bátinn. Þess má geta að Björn Lillevoll tók þátt í bátadögum með okkur og hafði gaman af, hann nýtti tækifærið til að skoða breiðfirsku bátana vel og leist mjög vel á.
Fyrri hlut þessa verkefnis fór fram í Gradanger síðast liðið haust en þá fóru fulltrúar frá Síldaminjasafninu í heimsókn í Bátaverndarmistöð norður Noregs til að kynnast og taka þátt í smíði á norskum feræringi undir leiðsögn Björn Lillevoll. Undirrituðum var boðið að vera með í för til að kynnast starfsemi bátavendarmiðstöðvarinnar.
Hér fyrir neðan er smá fróðleiksmoli um eyfirskt bátalag, og sést þar hversu vel er við hæfi að smíðin á Siglufirði sé samstarfsverkefni á milli Íslendinga og Norðmanna.
Í frásögn Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings í Andvara árið 1900 getur hann þess að bátar með Eyjarfjarðarlagi sé nokkurs konar samruni að eyfirsku og norsku handbragði.
Orðrétt segir Bjarni "Bátar hér eru all flestir með Eyjarfjarðarlaginu sem er sameining af lagi hinna gömlu Eyjarfjarðarbáta og norsku sjægte lagi, þeir eru góðir í sjó að leggja og vel lagaðir bæði til róðurs og siglinga. Þeir eru að smíði og frágangi vandaðri og smekklegri en aðrir íslenskir bátar er ég hef séð".
Algengast var að á Eyjarfjarðarbátum væri fokka og ýmist spritsegl eða gaffalsegl. Helsta einkenni eyfirsku bátanna er að böndin koma upp með þóftum framan til en ekki undir þær miðjar eins og algengast var á öðrum bátategundum hér við land.
Kveðja Hjalti Hafþórsson