18.11.2011 14:03
Bátadagar 2009
6. March, 2009
Reykhólamenn eru búnir að ákveða tímasetningu Bátadaganna á nýja árinu. Að þessu sinni verða þeir helgina 11. og 12. júlí. Farið verður á ennþá óvissum fjölda súðbyrðinga frá höfninni á Stað á Reykjanesi á laugardagsmorgni og komið við í eyjum á leiðinni til Flateyjar, þar sem gist verður um nóttina. Að Bátadögum stendur sami hópurinn sem undanfarin ár hefur unnið að uppbyggingu Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Vonast er til þess að sem flestir sem hafa yfir súðbyrtum sjófærum trébátum að ráða, gömlum sem nýjum, komi og verði með í ferðinni.
Bátadagar ferðaáætlun 11. og 12. júlí 2009
Farið verður frá Stað kl. 10 að morgni 11. júlí. Siglt verður út flóann meðfram Skákaskeri og Leiðarskeri í lendingu í Skáleyjum. Þaðan verður farið út Langeyjarsund, Brandssund meðfram Látratöngum og Lyklaskeri út á Bæjarsund í lendingu í Hvallátrum. Farið verður þaðan út Bæjarsund, Lokaskerssund eða Leiðarsund meðfram Sprókseyjum og Klofningi í lendingu í Svefneyjum, þaðan verður farið út Flateyjarsund og Hafnarsund til Flateyjar. Þeir sem geta látið báta sína fjara þurfa að vera komnir í Grýluvog milli kl. 9 og 10 um kvöldið, þar verða bátarnir geymdir um nóttina.
sunnudagur 12. júlí
Kl. 10 (um flæðina) á sunnudagsmorgun þarf að taka bátana úr Grýluvogi. Farið verðir af stað úr Flatey kl. 13 sem leið liggur um Eyjarendasund suður fyrir Svefneyjar í Sviðnur og farið þaðan um Sviðnasund meðfram Skutlaskerjum að Stað.
Stoppað verður á hverjum stað í einn eða tvo klukkutíma, nema í Flatey þar sem gist verður. Rétt er að taka fram að sjávarföll ráða meira um ferðatilhögun en klukkan.